Taktikal hefur gert samning við Kelduna um að tengja við gagnagrunn þeirra fyrir uppflettingar á stjórnmálalegum tengslum
Taktikal stækkar vöruúrvalið og býður nú viðskiptavinum sínum upp á tengingu við gagnagrunn Keldunnar fyrir könnun á stjórnmálalegum tengslum (PEP) á íslenskum aðilum jafnhliða því að bjóða upp á aðgang að alþjóðlega viðurkenndum PEP grunni.
Eftirlitsskyldir aðilar bera ríka ábyrgð á því að framkvæma áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum sínum til þess að sporna gegn peningaþvætti. Slíkir ferlar geta verið tímafrekir og kostnaðarsamir í uppsetningu en með Taktikal er hægt að einfalda þá verulega.
Áreiðanleikakannanir fela meðal annars í sér að fara yfir möguleg stjórnmálaleg tengsl viðskiptavina og krefja forsvarsfólk um að gefa upp eignarhald fyrirtækisins og uppruna fjármagns. Allt þetta er hægt að gera með Taktikal þar sem auðkenning og sannreyning á skilríkjum fer fram.
Sjálfvirkar uppflettingar á stjórnmálalegum tengslum
Uppfletting á stjórnmálalegum tengslum er mikilvægur hluti af áreiðanleikakönnunum. Ástæðan er sú að aðilar með slík tengsl eru taldir útsettari fyrir spillingu og mútuþægni en aðrir. Komi í ljós að viðskiptavinur sé í áhættuhópi ber eftirlits- og tilkynningarskyldum aðilum að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun.
Með tengingunni við Kelduna er uppfletting á stjórnmálalegum tengslum framkvæmd sjálfkrafa í gagnagrunni Keldunnar á þeim forsvarsmönnum sem skráðir eru í ferlið en einnig er framkvæmd uppfletting á raunverulegum eigendum og öðrum aðilum eins og t.d. stjórnarfólki og framkvæmdastjórum. Þegar viðskiptamanni hefur verið flett upp er afhent skýrsla með öllum niðurstöðum ásamt heimildum sem stuðst er við. Ef viðskiptamaðurinn finnst ekki í gagnagrunninum er einnig afhent skýrsla sem staðfestir að leitin hafi verið framkvæmd. Ferlið er því vel skjalfest komi til úttektar eftirlitsaðila síðar meir.
Til þess að fá skýra yfirsýn yfir stöðu áreiðanleikakannana og áhættuflokkun viðskiptavina hafa notendur aðgang að áhættuvöktun Taktikal. Um er að ræða mælaborð er veitir góða yfirsýn yfir allar uppflettingar og stöðu á áhættuflokkun viðskiptavina. Úr áhættuvöktun er einnig hægt að vakta hvenær kemur að endurnýjun áreiðanleikakannana hjá viðskiptavinum og yfirfara og staðfesta niðurstöður varðandi stjórnmálaleg tengsl.
Nákvæmari niðurstöður fyrir íslenskan markað
“Taktikal hefur verið leiðandi hér á landi í að bjóða upp á stafrænar lausnir gegn peningaþvætti. Við leggjum áherslu á að bjóða einfaldar og sveigjanlegar lausnir fyrir eftirlits- og tilkynningarskylda aðila, þannig að þeir geti aukið skilvirkni hjá sér án þess að fórna öryggi eða leggja út í dýr þróunarverkefni. Með samstarfi við Kelduna getum við nú boðið enn betri gögn í lausn sem þegar hefur sannað sig,“ segir Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal.
Taktikal hefur til fjölda ára boðið upp á alþjóðlega gagnagrunna fyrir stjórnmálaleg tengsl, þvingunarlista og neikvæða fjölmiðlaumfjöllun. Slíkir listar eru uppfærðir daglega en með tengingu við Kelduna fást enn nákvæmari upplýsingar um stjórnmálaleg tengsl Íslendinga, enda gagnagrunnur þeirra alfarið unninn á Íslandi og gögnin tengd við íslenskar kennitölur. Samþætt lausn erlendra og innlendra gagnagrunna er því öflug leið til að lágmarka áhættu með því að sannvotta svörun úr áreiðanleikakönnunum.
“Við óskum Taktikal til hamingju með innleiðinguna og fögnum því að notendur þeirra hafi nú greiðan aðgang að traustum upplýsingum. Við erum ánægð með samstarfið við Taktikal og að gagnagrunnurinn nýtist í þeirra lausn og þannig enn fleiri aðilum”, segir Kristófer Páll Lentz, sölu- og markaðsstjóri Kóða, sem á og rekur Kelduna.
Hafðu samband til að fá kynningu á lausninni og sjá hvernig hún getur stutt þitt fyrirtæki.