Taktikal hlaut nýverið hæstu einkunn í ríkisútboði fyrir rammasamning ríkisins og sveitarfélaga í útboði „21308: FA - Electronic Signatures” um rafrænar undirskriftir og traustþjónustur sem boðið var út á Íslandi og á Evrópska Efnahagssvæðinu. Innlendir og erlendir aðilar buðu í samninginn og hlaut Taktikal hæstu einkunn í einkunnagjöf þar sem verð og gæði eru metin samkvæmt mati Ríkiskaupa. Um er að ræða rammasamning um hugbúnaðarlausnir til rafrænna undirskrifta fyrir opinberar stofnanir og sveitarfélög, en opinberir aðilar hafa síðastliðin misseri í auknum mæli verið að nýta sér tæknina til að hagræða og bæta þjónustu við sína viðskiptavini.
Almenningur vill rafrænar lausnir
Almenningur gerir sífellt meiri kröfu um að geta afgreitt sín mál rafrænt og hafa kostir þess bersýnilega komið í ljós í yfirstandandi heimsfaraldri. Mikilvægt er að geta haldið áfram að þjónusta fólk þó óvenjulegar aðstæður eins og t.d. þegar takmarkanir á opnunartímum eða afgreiðslustöðum koma upp. Gildi rafrænna undirskrifta og rafrænna samningsferla hefur berlega komið í ljós eftir Covid þar sem þörfin á sjálfvirknivæðingu á rafrænum viðskiptaferlum hefur farið frá því að vera þægindi yfir í það að vera nauðsyn. Lausnir Taktikal eru nú þegar í notkun hjá fjölda fyrirtækja og opinberra aðila þar sem viðskiptavinir geta nú skrifað undir samninga, fyllt út eyðublöð og fjölbreyttar umsóknir allt með rafrænum hætti. Með rafrænum undirskriftum geta algeng afgreiðsluferli orðið rafræn frá A til Ö sem þýðir mikla hagræðingu og skilar sér í hraðari og skilvirkari afgreiðslu, fækkun bílferða auk þess að pappírsnotkun og prentkostnaður heyrir sögunni til.
Að keppa við erlenda risa
Það er ekki sjálfgefið fyrir íslenskt nýsköpunarfyrirtæki að geta keppt við stór erlend fyrirtæki á markaði í miklum vexti. Við erum ákaflega stolt af því að hafa náð að uppfylla allar útboðskröfur og er þetta mikil viðurkenning á faglegu stigi kjarnavöruþróunar okkar. Við finnum nú þegar fyrir gríðarlegum áhuga. Hingað til hafa einkaaðilar oft verið leiðandi í að þjónusta sína viðskiptavini rafrænt en nú eru opinberu aðilarnir að sækja í sig veðrið af fullum krafti. Með því að sjálfvirknivæða í okkar lausnum hefur okkur tekist að halda kostnaði niðri og má gera ráð fyrir því að sparnaður ríkisins af slíkum lausnum muni verða umtalsverður í framtíðinni.