Taktikal gerir samning við alþjóðlegan risa í auðkenningarlausnum

Taktikal hefur gert samstarfssamning við Veriff, leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki í auðkenningarlausnum. Með samstarfinu opnar Taktikal fyrir viðskiptavini á heimsvísu með miklar kröfur um öryggi.

Samstarfið gerir Taktikal kleift að sannreyna auðkenni notenda út frá vegabréfi eða ökuskírteini með sjálfvirkri sannprófunartækni og tengja auðkenninguna beint við rafrænar undirskriftir. Veriff styrkir þannig enn frekar öryggi alþjóðlegra undirskrifta Taktikal og getur Taktikal nú boðið upp á svokallaðar Advanced Signatures (AES) sem eru með eitt hæsta öryggisstig undirskrifta í heiminum. Öryggið felst í að undirskriftir eru tengdar undirritara með einkvæmu auðkenni, en erlendis eru undirskriftir oft á tíðum eingöngu tengdar við undirritara með netfangi. Til að tryggja varðveitingu skjalsins eru öll skjöl einnig tímastimpluð með vottuðum tímastimpli og innsigluð við hverja undirritun.

„Sterk auðkenning er grunnurinn að því að skapa traust á undirskriftum, samningum og móttöku nýrra viðskiptavina, sérstaklega í áhættusömum geirum eins og fjármála- og tryggingageiranum,“ segir Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal. „Með samstarfinu við Veriff höfum við fengið samstarfsaðila sem getur  sannprófað auðkenni undirritenda á svæðum þar sem rafræn skilríki eru ekki eins útbreidd. Með samstarfinu getum við m.a. stækkað notendahóp okkar til markaða eins og Bandaríkjanna og Bretlands þar sem rafræn skilríki eru sjaldséð auk þess að geta þjónustað alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi enn betur."

„Vöxtur rafrænna undirskrifta hjá fyrirtækjum og stofnunum er gríðarlega mikill. Fyrir vikið höfum við séð mikla aukningu á tilraunum til svika,“ segir Janer Gorohhov, stofnandi og yfirmaður vöruþróunar hjá Veriff. „Það hefur aldrei verið eins mikilvægt fyrir fyrirtæki þvert á atvinnugreinar að vera skrefi á undan svikastarfsemi og geta staðfest raunveruleg auðkenni hjá þeim sem undirrita skjöl. Við erum afar spennt fyrir samstarfinu við Taktikal og samvinnunni sem felst í því að hjálpa fyrirtækjum að minnka rekstraráhættu og byggja meira trausti á rafrænum viðskiptaferlum.

Lausnin er sérstaklega mikilvæg í öllum þeim löndum sem ekki bjóða upp á rafræn skilríki á síma, en með tækni Veriff getur Taktikal nú sannreynt 11.300 ríkisútgefin skilríki frá meira en 230 löndum og á 48 mismunandi tungumálum.  Nánar um KYC ferli (Know Your Customer) og útfærslu á undirskriftum með hærra öryggis- og fullvissustig (Advanced signatures)

MBL Taktikal Veriff